Hoppa yfir valmynd
Stjórnsýslukærur - úrskurðir

Úrskurður um stjórnsýslukæru vegna ákvörðunar tollstjóra um afturköllun afhendingarheimildar

Fortis lögmannsstofa
Kristján B. Thorlacius
Laugavegi 7
101 Reykjavík

Reykjavík 19. ágúst 2013
Tilv.: FJR13040098/16.2.2

Efni: Úrskurður um stjórnsýslukæru [X] vegna ákvörðunar tollstjóra um afturköllun afhendingarheimildar.

Ráðuneytið vísar til stjórnsýslukæru, dagsettrar 22. apríl 2013. Kærandi er [X].
Kærandi fer fram á að afturköllun tollstjóra á afhendingarheimild á gámi [Y] verði felld úr gildi og krefst afhendingar gámsins á grundvelli þeirra heimilda sem í gildi voru þegar afhendingarheimildin var gefin út, þann 20. nóvember 2012.

Málavextir og málsástæður
Þann 20. nóvember 2012 var afhendingarheimild veitt vegna gáms kæranda frá Hamburg. Var sendingarnúmer gámsins [Y]. Innihélt gámurinn samkvæmt reikningi 2.000 kassa af […] að verðmæti 16.950 evra. Eftir veitingu afhendingarheimildarinnar 20. nóvember 2012 taldi tollstjóri að ástæða væri til að framkvæma frekari leit í gámnum vegna gruns um að magn væri ekki í samræmi við skjöl og því þyrfti að fara fram talning. Fyrri ákvörðun um útgáfu afhendingarheimildar var afturkölluð og gjöld bakfærð.
Í svari tollstjóra til kæranda þann 23. janúar 2013 vegna málsins kom fram að skuld [X] vegna áfengisgjalds, virðisaukaskatts og annarra gjalda fyrri sendinga hafi verið gjaldfallin og ekki væri hægt að afgreiða sendinguna sem um ræðir fyrr en þau gjöld hefðu verið greidd upp. Var vísað til 7. gr. reglugerðar um áfengisgjald nr. 505/1998 þar sem segir: Sé gjald af innfluttu áfengi ekki greitt á gjalddaga, sbr. 3. mgr. 5. gr., skal tollstjóri synja innflytjanda um frekari greiðslufrest á áfengisgjaldi meðan vanskil vara. Jafnframt skulu dráttarvextir reiknast samkvæmt vaxtalögum nr. 25/1987 á vangreitt áfengisgjald frá og með gjalddaga.
Af þessum sökum telur embætti tollstjóra að afhendingarheimildin sem veitt var þann 20. nóvember 2012 sé ógildanleg sbr. 2. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga enda hefði ekki mátt afhenda nýja gáminn með gjaldfresti þar sem fyrri gjöld voru enn ógreidd. Eindagi áfengisgjalds að fjárhæð 528.847 kr. var þann 19. nóvember 2012 og því liðinn þegar gámur [Y] fékk afhendingarheimild. 

Stjórnsýslukæra [X]
Þann 22. apríl 2013 kærði [X] ákvörðun tollstjóra um að afturkalla afhendingarheimild á gámi [Y]. Byggir kærandi á því að óheimilt hafi verið að afturkalla afhendingarheimild til kæranda samkvæmt 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993.
Telur kærandi að um íþyngjandi ákvörðun gagnvart sér hafi verið um að ræða þar sem hann hafði gert ráð fyrir að geta fengið gám sinn afhentan þegar honum barst afhendingarheimildin og þá þegar komið innihaldi gámsins í verð. Þá tók reglugerð nr. 982/2012 um breytingu á reglugerð 1100/2006 um vörslu og tollmeðferð vöru gildi daginn eftir að kæranda var veitt afhendingarheimild. Fól þessi breyting í sér að áfengisgjald skal staðgreitt eða lögð skal fram trygging fyrir því áður en heimilt er að afhenda innflutt áfengi. Þessi reglugerð nr. 982/2012 tók gildi samdægurs og gilti um allar sendingar sem ekki höfðu verið tollafgreiddar þegar hún tók gildi. Kærandi heldur því fram að af þessum sökum hafi hann ekki fengið greiðslufrest í samræmi við 5. gr. reglugerðar nr. 505/1998 um áfengisgjald heldur þurft að staðgreiða áfengisgjald eða leggja fram tryggingu fyrir því.
Kærandi bendir ennfremur á rökstuðning tollstjóra fyrir ákvörðun sinni um að afturkalla afhendingarheimildina þess efnis að leita hafi þurft í gámnum vegna gruns um að magn hafi ekki verið í samræmi við skjöl. Kærandi telur að ástæður talningar hefðu þurft að vera ríkari en ella vegna þess að gripið var til þess íþyngjandi úrræðis að afturkalla afhendingarheimild. Ekkert hafi komið fram sem sýni að grunur tollstjóra hafi verið á rökum reistur og ekkert óeðlilegt hafi fundist við leit í gámnum.

Umsögn tollstjóra
Þann 2. júlí 2013 barst fjármála- og efnahagsráðuneytinu umsögn tollstjóra um stjórsýslukæru [X] vegna tollafgreiðslu. Staðfestir embætti tollstjóra að eftir að afhendingarheimild hafi verið veitt þann 20. nóvember 2012 vegna gáms frá Hamborg [Y] hafi þótt ástæða til þess að framkvæma frekari leit í gámnum vegna gruns um að magn væri ekki í samræmi við skjöl og því hafi talning þurft að fara fram. Þá bendir tollstjóri á að gjaldfallin sé skuld [X] vegna áfengisgjalds, virðisaukaskatts og annarra gjalda fyrri sendinga og því verði umrædd sending ekki afgreidd fyrr en þau gjöld hafi verið greidd upp. Byggi þetta á 7. gr. reglugerðar um áfengisgjald nr. 505/1998. Eindagi áfengisgjalds að fjárhæð kr. 528.847 var þann 19. nóvember 2012. Afhendingarheimildin var veitt þann 20. nóvember 2012 og telur tollstjóri hana því hafa verið í andstöðu við 7. gr. reglugerðar um áfengisgjald nr. 505/1998 þar sem ekki mátti afhenda nýja gáminn með gjaldfresti þegar gjöld vegna fyrri sendinga voru enn ógreidd. Því hafi verið rétt að afturkalla afhendingarheimildina samkvæmt 2. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga enda hafi ákvörðunin um afhendingu verið ógildanleg þar sem sá galli á málsmeðferðinni, að líta ekki til gjaldfallinna skulda áður en afhendingarheimildin var veitt, verið verulegur og hafði áhrif á niðurstöðu málsins.
Þegar umrædd tollleit fór fram hafði hin nýja reglugerð, nr. 982/2012 um breytingu á reglugerð nr. 1100/2006 um vörslu og tollmeðferð vöru, tekið gildi en birtingardagur hennar var 22. nóvember 2012. Tollstjóri tekur fram að þó svo að sú reglugerð hefði ekki verið sett væru samt sem áður ekki fyrir hendi skilyrði til að gefa út afhendingarheimild þar sem gjalddagi fyrri áfengisskuldar að fjárhæð kr. 528.847 var 19. nóvember 2012 og gjalddagi áfengisskuldar að fjárhæð kr. 13.768.901 var 4. desember 2012 og hvorug skuldin hafði verið greidd.
Ennfremur segir tollstjóri að reglugerð nr. 982/2012 gildi um allar þær sendingar sem ekki hafi verið tollafgreiddar á þeim tímapunkti sem hún tók gildi.

Forsendur
Í 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 koma fram þau skilyrði sem þurfa að vera fyrir hendi til þess að stjórnvald megi afturkalla ákvörðun sína. Eru þau í fyrsta lagi þegar afturköllun er aðila ekki til tjóns og í öðru lagi þegar ákvörðun er ógildanleg.
Í 7. gr. reglugerðar nr. 505/1998 er fjallað um áhrif þess að áfengisgjald er ekki greitt á gjalddaga. Í 1. mgr. 7. gr. segir að sé áfengisgjald ekki greitt á gjalddaga skuli aðili sæta álagi til viðbótar því gjaldi sem honum ber að standa skil á. Í 4. mgr. 7. gr. kemur fram að verði vanskil á greiðslu áfengisgjalds skuli tollstjóri synja innflytjanda eða framleiðanda um frekari greiðslufrest meðan vanskil vara. Samkvæmt 5. mgr. 7. gr. getur tollstjóri án fyrirvara stöðvað tollafgreiðslu á öðrum vörum til skuldara eða látið lögreglu stöðva atvinnurekstur skuldarans ef um er að ræða ítrekuð eða stórfelld vanskil á greiðslu áfengisgjalds.
Reglugerð nr. 989/2012 um breytingu á reglugerð nr. 1100/2006 tók gildi þann 22. nóvember 2012. Tvær málsgreinar 4. og 5. bættust við 33. gr. reglugerðar nr. 1100/2006. Breytingarnar hafa í för með sér að áfengisgjöld skulu ekki skuldfærð við innflutning áfengis. Skráðum innflytjendum áfengis skv. 3. gr. áfengislaga nr. 75/1998 skal þó veittur greiðslufrestur séu lagðar fram fjártryggingar. Í 5. mgr. kemur fram að tollstjóri megi falla frá kröfu um framlagningu fjártryggingar að uppfylltum vissum skilyrðum. Meðal þeirra eru að viðkomandi hafi staðið í skilum með opinber gjöld, hafi stundað reglubundinn innflutning á áfengi sem sambærilegur er með tilliti til álagðra áfengisgjalda a.m.k undanfarin tvö ár, stjórnarmenn, framkvæmdarstjóri og prókúruhafar hafi óflekkað mannorð og hafi ekki á síðustu 10 árum fengið dóm fyrir refsiverðan verknað samkvæmt hegningarlögum eða öðrum lögum.

Niðurstaða
Í 2. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993 kemur fram heimild stjórnvalds til að afturkalla ákvörðun sína að eigin frumkvæði þegar ákvörðun er ógildanleg. Leysa ber úr því hvort ákvörðun er haldin ógildingarannmarka eftir sömu sjónarmiðum og dómstólar gera. Við mat á því hvort um ógildanlega ákvörðun sé að ræða ber meðal annars að líta til réttmætra væntinga málsaðila, góðrar trúar hans og réttaröryggis (Páll Hreinsson, Stjórnsýslulögin skýringarit 1994 bls. 248). Þá hefur það grundvallarþýðingu við mat á þeim annmarka sem ákvörðun er haldin hvort um lögbundna eða matskennda ákvörðun hafi verið að ræða.
Í 4. mgr. 7. gr. reglugerðar um áfengisgjald nr. 505/1998 kemur fram að tollstjóri skuli synja innflytjanda eða framleiðanda um frekari greiðslufrest verði vanskil á greiðslu áfengisgjalds. Því var tollstjóra óheimilt að tollafgreiða gám [Y] og veita kæranda afhendingarheimild án þess að greiðsla vangreiddra gjalda færi áður fram. Eru engar undanþágur frá þessu ákvæði í 4. mgr. 7. gr. reglugerðarinnar nr. 505/1998. Af þeim sökum var um lögbundna ákvörðun að ræða. Tollstjóri gætti ekki hlutlægs og ófrávíkjanlegs skilyrðis sem sett er fyrir tollafgreiðslu með greiðslufresti þegar afhendingarheimild var veitt. Stjórnvaldsákvörðunin var ólögmæt að efni til og því ógildanleg. Efnisannmarkinn er verulegur og stuttur tími leið frá því ákvörðun var tekin og þar til kæranda var tilkynnt að hún skyldi afturkölluð. Telur ráðuneytið því að skilyrðum 2. tl. 25. gr. stjórnsýslulaga til afturköllunar hafi verið fullnægt.

Úrskurðarorð

Ákvörðun tollstjóra um afturköllun afhendingarheimildar gáms [Y] er staðfest.

Fyrir hönd ráðherra







Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum